Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt að veitingahúsakeðjurnar Gleðipinnar, og FoodCo sameinist undir merkjum þeirrar fyrrnefndu án skilyrða. Einungis einn umsagnaraðili lagðist gegn sameiningunni sem stofnunin telur geta myndað einingu með allt að fjórðungsmarkaðshlutdeild í ferli sem tekið hefur fimm mánuði hjá stofnuninni að afgreiða.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í ágústlok felur sameiningin í sér að meðal annars veitingastaðirnir Keiluhöllin, Saffran, Hamborgarafabrikkan, American Style, Pítuna, Aktu Taktu, Roadhouse, Eldsmiðjan og Kaffivagninn við Grandagarð verða nú rekin undir einu nafni.

Í heildina eru þetta nú 19 staðir, en þá hafði einum stað verið lokað frá því að samrunaferlið hófst. Auk þess höfðu Gleðipinnar keypt hlut í Blackbox pizza keðjunni áður en að samrunanum kom.

Simmi farinn út en Jói vill gefa FoodCo stöðunum meiri ást

Eigendur FoodCo eru Jóhann Örn Þórarinsson, með 42,5% hlut í gegnum félagið Jöklaborg, Þórarinn Ragnarsson sem fer beint með 40% hlut, Bjarni Stefán Gunnarsson sem fer með 15% hlut í gegnum Eldheima ehf., og svo Þórarinn Ragnarsson sem fer með 2,5% í gegnum ÞR ehf. Eigendur Gleðipinna eru Guðmundur Auðunsson og Guðríður María Jóhannesdóttir, sem eiga til helminga 51% hlut í gegnum félagið Granat. Guðríður er jafnframt framkvæmdastjóri Múlakaffis. Félagið Jóhannes Ásbjörnsson á 39% í gegnum félagið Hinir ehf. Loks á félagið 10% af eigin hlutum.

Sagði Jóhannes Ásbjörnsson, þekktur sem Jói í Simma og Jóa tvíeykinu, að hópurinn ætli sér að ráðast í metnaðarfullar og ástríkar aðgerðir til að gefa sumum stöðunum meiri ást en þeir hafi fengið að undanförnu. Simmi, eða Sigmar Vilhjálmsson seldi hlut sinn í Gleðipinnum í byrjun sumar 2018, og hefur síðan keypt í Hlöllabátum ásamt því að stofna sportbar í Mosfellsbæ, og undirbúa rekstur minigolfskemmtistaðar í gömlu höfuðstöðvum Vodafone við Holtagarða.

Jói segir jafnframt að áhersla verði lögð á að skapa gott umhverfi fyrir starfsfólk. „Það á að vera gaman að vinna hjá Gleðipinnum og við viljum halda í samstarfsfólk okkar eins lengi og við getum.  Við ætlum því að bjóða okkar starfsfólki námsstyrki svo það geti betur stundað nám samhliða vinnu," sagði Jói á sínum tíma.

Tók mánuð að fá samrunaskrá samþykkta hjá stofnuninni

Samkeppniseftirlitið fór í ítarlega greiningu á markaðsaðstæðum veitingastaða á Íslandi eftir að hafa tilkynnt félögunum um að svokölluð samrunaskrá sem þau hefðu skilað inn væri ófullnægjandi. Þegar stofnunin lét loks vita að uppfærð samrunaskrá væri fullnægjandi var næstum því liðinn mánuður frá því að hún hafði verið fyrst send til hennar.

Hálfum mánuði síðar tilkynnti stofnunin svo um að hún teldi ástæðu til að rannsaka samkeppnisleg áhrif samrunans, og óskaði hún svo umsagna frá keppinautum einum og hálfum mánuði síðar, eða í lok nóvember.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um málið er svo farið ítarlega í skilgreiningu markaða samkvæmt samkeppnislögum, hvort rétt væri að skilgreina sérstaka undirmarkaði eins og fyrir skyndibitastaði, pizzur og svo framvegis. Niðurstaðan eftir allt saman var þó að ekki væri þörf á því fyrir þetta tiltekna samrunamál að taka „endanlega afstöðu til þess hvort skilgreina eigi markaðinn fyrir veitinga- og skyndibitastaði í sérstaka undirmarkaði“.

Rannsökuðu hlutfall Gleðipinna af veltu um 600 staða

Loks kemur fram að í vinnslu málsins hafi starfsmenn stofnunarinnar aflað upplýsinga um veltu allra veitinga- og skyndibitastaða á Íslandi út frá virðisaukaskattskýrslum.

Í kafla um þau mál í skýrslu Samkeppniseftirlitsins segir:

„Heildarvelta þeirra var [80-90] milljarðar króna árið 2018. Innan flokksins eru veitingastaðir, kaffistofur, skyndibitastaðir, staðir sem selja mat til að taka með, ísbílar, pylsuvagnar og aðrir færanlegir veitingavagnar og tilreiðsla matar í markaðsbásum. Alls voru rekstraraðilar innan flokksins tæplega 600 talsins.

Sé einungis horft til þeirra aðila innan atvinnugreinaflokksins sem höfðu að lágmarki 200 milljóna króna veltu árið 2018 og starfa á sama landfræðilega markaði og samrunaaðilar (þ.e. innan höfuðborgarsvæðisins) var heildarveltan [40-45] milljarðar króna. Sé horft til allrar veltu samrunaaðila það sama ár, nam samanlögð hlutdeild þeirra [10-15]%.

Sé horft til sama hóps með þeirri breytingu að undanskildir eru aðilar sem reka formlega veitingastaði (e. Fine dining) er heildarveltan um [25-30] milljarðar króna og hlutdeild samrunaaðila [15-20]% (í flestum tilvikum er um að ræða einn veitingastað rekinn undir sömu kennitölu). Sé hópurinn þrengdur enn frekar þannig að ekki sé horft til veitingastaða sem einkum starfa í heimsendingarþjónustu eða „take-away“ er heildarveltan [20-25] milljarðar króna og hlutdeild samrunaaðila um [20-25]%.

Í öllum framangreindum tilvikum er ekki horft til veltu aðila sem höfðu minni en 200 milljóna króna ársveltu. Ljóst er að sé einnig horft til hennar er samanlögð hlutdeild samrunaaðila í öllum tilvikum nokkuð lægri.“

Loks er vísað í að flestir umsagnaraðilar meðal keppinauta hafi ekki séð ástæðu til að hafa uppi efnislegar athugasemdir vegna samrunans eða lýstu sig sammála sjónarmiðum í samrunaskrá. Þó taldi einn umsagnaraðili úr hópi birgja að ef samruninn yrði heimilaður næði nýja fyrirtækið slíkri stærðarhagkvæmi að þeir kynnu að geta hindrað aðra að keppa á jafnræðisgrundvelli.

Það hafði þó að lokum eftir allt saman ekki áhrif á að niðurstaða stofnunarinnar var að heimila samrunann, enda geti Samkeppniseftirlitið fallist á „með samrunaaðilum að bæði framboðs- og eftirspurnarstaðganga virðist nokkur á markaðnum. Þannig geta rekstraraðilar auðveldlega breytt vöruframboði til þess að mæta þörfum markaðarins.“