Fjárfestar blésu í lúðra á mörkuðum í gær í kjölfar þess að tilkynnt var um að bandarísk stjórnvöld tækju yfir fasteignalánasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac.

Gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum hækkuðu töluvert austan hafs og vestan. Það þykir til marks um að fjárfestar eygi nú betri tíð með blóm í haga. Hins vegar telja aðrir að þjóðnýtingingin sé fyrst og fremst staðfesting á djúpstæðum vanda en ekki lausn.

Bandarísk stjórnvöld tóku yfir Fannie og Freddie vegna vaxandi efasemda um að þeir þyldu enn frekari niðursveiflu á bandaríska fasteignamarkaðnum.

Eiginfjárstaða þeirra er slök og þeir hafa ekki getað aflað sér fjár á mörkuðum svo nokkru nemi að undanförnu. Gengi hlutabréfa þeirra hefur hrunið frá því að lánsfjárkreppan skall á og æ fleiri hafa talið, að öllu óbreyttu, fall þeirra óumflýjanlegt.

Varla er hægt að kveða nægilega fast að orði til þess að lýsa afleiðingum slíkrar atburðarásar en sjóðirnir tveir tryggja tæplega helming af öllum fasteignalánum í Bandaríkjunum og varla finnst sá seðlabanki í heiminum sem ekki á skuldabréf gefin út af þeim.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .