Lausafjárkreppan sem riðið hefur yfir heiminn undanfarið hefur leitt til þess að bankar og fjármálafyrirtæki hafa gripið til þess ráðs að selja hlutabréf til erlendra fjárfesta. Aðrir sem líta svo á að erfiðir tímar séu framundan velta fyrir sér sölu á erlendum útibúum eða jafnvel heilum deildum innan fyrirtækjanna.

Meðal félaga sem eru að velta fyrir sér sölu eða lokun útibúa er Citigroup og er talið að félagið vilji helst losa sig við nokkrar meðalstórar einingar. Breski bankarisinn HSBC Holdings er sagður vera í svipuðum hugleiðingum og talið líkur á að félagið losi sig við deild þess sem sér um að lána fé til bifreiðakaupa.

Merrill Lynch ákvað fyrir stuttu að selja General Electric hluta af lánastarfsemi sinni fyrir 1,3 milljarða Bandaríkjadala og Morgan Stanley aflaði 250 milljóna dala fyrir skemmstu þegar félagið seldi hluti í MSCI á frjálsum markaði.