Íhaldssami sjónvarps- og útvarpsþáttastjórnandinn Glenn Beck sem hingað til hefur stutt Repúblikana heilum hug lýsir yfir stuðningi við Hillary Clinton í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Þetta gerði hann á facebook síðu sinni og sagði það siðferðislega rétt val. Kemur þetta í kjölfar upptöku af Trump þar sem hann lýsti aðferðum sínum við að fleka konur í einkaspjalli fyrir mörgum árum.

Þáttastjórnandi á Fox News

„Ef afleiðingin af því að standa gegn Trump og fyrir hugsjónirnar sé kosning Hillary Clinton, þá verður svo að vera. Að minnsta kosti er það siðferðislega rétt val,“ skrifaði Beck.

Glenn Beck hefur verið þáttastjórnandi á Fox News og stýrir nú vinsælum útvarpsþáttum, en hann studdi framboð Ted Cruz heilum hug í forkosningum Repúpblikanaflokksins.

Líkir Trump við Hitler

Hann er mormónatrúar en margir mormónar hafa stutt Repúblikana á síðustu árum, þó ýmsir leiðtogar Demókrata hafi einnig verið í þeirri kirkju.

Glenn Beck líkir Trump reglulega við Hitler og stuðningsmönnum hans við stormsveitarmenn.