Emar byggingavörur hafa sameinast Glerborg, en unnið hefur verið að sameiningu félaganna um nokkurra vikna skeið.

Maðurinn að baki Emar byggingavörum er Eggert Marinósson, en hann hefur staðið að innflutningi og sölu á gluggum frá Litháen frá árinu 2006. Sameiningarviðræður félaganna gengu betur en vonir stóðu til um. Hefur fyrirtækið tryggt sér tvo samninga um sölu á fyrstu ál- og trégluggunum frá Emar en þeir verða annars vegar í hóteli sem Hótelbyggingar vinna að því að reisa við Þórunnartún í Reykjavík og hins vegar í fjögurra íbúða raðhúsi við Lofnarbrunn í Úlfarsárdal.

Rúnar Árnason, forstjóri Glerborgar, segir fyrirtækið hafa vantað timburglugga í vöruúrvalið og því hafi verið horft til glugganna frá Emar. „Margir sækjast eftir hlýju timbursins. En stundum eru trégluggarnir klæddir áli að utan til að verja þá fyrir veðri og vindum. Það hefur líka áhrif á viðhald þeirra,“ segir Rúnar.

Glerborg hefur stækkað nokkuð upp á síðkastið og eru starfsmenn fyrirtækisins nú um 19 talsins.