Konur eru í minnihluta umsækjenda í auglýstar æðstu stjórnunarstöður en þær sem sækja um eru líklegri til að fá starfið en karlar. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Kristín Ágústsdóttir, verkefnastjóri við Háskólann í Reykjavík, framkvæmdi. Hún fjallar um rannsóknina í aðsendri grein í Fréttatímanum í dag.

Samkvæmt rannsókn voru konur 24,6% umsækjenda í þær æðstu stjórnendastöður sem skoðaðar voru. Karlar sem fengu starfið voru 61% umsækjenda en hlutfall kvenna var 39%. Konur höfðu því rúmlega tvisvar sinnum meiri líkur á ráðningu en karlar og fengu 3,2% kvenna starf á móti 1,6% karla.

Í greininni segir Kristín:

„Þegar litið er til sögunnar og þeirrar staðreyndar að karlar í dag eru í meirihluta þegar kemur að æðstu stjórnunarstöðum má ætla að eðlilegt sé að karlar hafi meiri reynslu af stjórnun e konur. Marktæku munur fannst á stjórnunarstarfsreynslu kynjanna í hópi þeirra sem sóttust eftir æðstu stjórnunarstöðum. Karlumsækjendur höfðu að meðaltali 4,90 fleiri ár í stjórnunarstarfsreynslu og karlar sem fengu starfið voru að meðaltali með 5,69 fleiri ár í stjórnunarstarfsreynslu en konur.Ekki fannst marktækur munur á menntun karla og kvenna, hvorki umsækjenda almennt né þeirra sem fengu starfið.“

Niðurstaða rannsóknar Kristínar er því að hin svokallaða „glerhurð“ sé ekki til staðar á Íslandi. Þetta hugtak vísar til ráðninga í æðstu stjórnunarstöður og er myndlíking fyrir hindranir sem konur standa frammi fyrir. Sambærilegt hugtak er „glerþak“ sem hefur verið notað um líkur einstaklinga á stöðuhækkun og mögulegar hindranir kvenna í slíkri samkeppni.

Kristín segir að þó ummerki „glerhurðarinnar“ séu ekki til staðar á Íslandi í dag megi segja að ummerki „glerþaksins“ megi enn finna þar sem konur séu enn í verulegum minnihluta þeirra sem gegna æðstu stjórnunarstöðum.