Spænska verðbréfafyrirtækið Ibersecurities mælir með því við viðskiptavini sína að þeir fjárfesti í Pescanova, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og eitt af stærstu fyrirtækjum sinnar tegundar í heiminum í dag.

Sérfræðingar verðbréfafyrirtækisins lýsa Pescanova sem gleymdum eða földum fjársjóði.

Greint er frá þessu á vefsíðu IntraFish. Þar segir að Pescanova sé eina sjávarútvegsfyrirtækið á Spáni sem skráð sé í kauphöllinni í Madrid en aðeins 130 fyrirtæki á Spáni eru með skráningu í kauphöllinni.

Flest eru mjög stór og reyndar svo stór að Pescanova þykir tiltölulega lítið fyrirtæki á mælikvarða Spánverja. Er það þó annað stærsta sjávarútvegfyrirtæki Evrópu og sjöunda stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims. Aðeins japönsku risasamsteypurnar eru stærri.

Blaðamaður IntraFish beitti þeirri aðferð við að afla upplýsinga um Pescanova að hringja í fjölmörg verðbréfafyrirtæki á Spáni og kom hann nánast alls staðar að tómum kofanum því enginn virtist vita neitt um sjávarútveg. Loks komst hann í samband við Antonio Castell, sem er annar af tveimur sérfræðingum á Spáni sem gert hefur sér far um að fylgjast með sjávarútvegi og þar með Pescanova.

Að sögn Castell er Pescanova trúlega mikilvægasta, gleymda félagið innan kauphallarinnar í Madrid. Hann segir kosti félagsins vera umtalsverða. Það sé með stærsta flota allra ESB ríkja, það sé stærsta fyrirtæki Evrópu á sviði framleiðslu á frystum sjávarafurðum og það hafi aðgang að nægilega miklu hráefni til þess að halda hjólum fiskvinnslunnar gangandi.

Pescanova er einnig stórt í sjávarútvegi í Portúgal, Frakklandi og á Ítalíu. Castell segir að sennilegasta ástæðan fyrir því að Pescanova hafi gleymst sé sú að aðeins 24% hlutabréfanna geti gengið kaupum og sölu á hlutabréfamarkaði.

Hans skoðun er sú að kaup á bréfum í félaginu sé góð fjárfesting vegna þess að verð hlutabréfanna er ekki hátt, staða félagsins á markaðnum á Spáni sé mjög sterk og það hafi mjög góðan aðgang að hráefni. Það sé mikill kostur þegar allt stefni í að eftirspurn eftir sjávarafurðum muni bara aukast á komandi árum.