Brotlendingu efnahags Íslands hefur oft verið spáð og ætti það að draga úr útrás íslenskra fjárfesta, en það virðist hafa gleymst að láta víkingana vita, segir í pistli Dow Jones, The Sceptic, eftir Robb M. Stewart.

Baugur Group lagði fram óformlegt kauptilboð í bresku verslunarkeðjuna House of Fraser í vikunni, sem hljóðaði upp á 351 milljón punda (48 milljarðar króna), sem er nægjanlega hagstætt fyrir hluthafa til að stjórnendur fyrirtæksisins veiti Baugi aðgang að bókhaldi til að gera áreiðanleikakönnun.

Baugur er meðal áleitnari fjárfesta frá Íslandi og er fyrirtækið þekkt fyrir kænsku í spákaupmennsku í hlutabréfum, sem Baugur selur síðan fyrir vænan ágóða.

En svo virðist sem Baugur ætli sér meira með kaupum á House of Fraser, en önnur vörumerki Baugs koma til með að hagnast af yfirtökunni. Baugur hefur áður gert atlögu að House of Fraser, en fyrirtækið keypti og seldi aftur 10% hlut árið 2003.

Nú í apríl keypti Baugur aftur 10% hlut á hærra verði, fyllilega meðvitaður um bágt ástand á breskum smásölumarkaði. En ef mark væri tekið á hrakfaraspám ætti þetta ekki að gerast.

Undanfarna mánuði hefur efnahagur Íslands verið óstöðugur og hefur nú hættan á brotlendingu efnahagsins tekið við af stöðugum uppvexti. Ísland hefur verið undir smásjánni í kjölfar umróts á fjármálamörkuðum. Athyglin beindist enn og aftur að landinu í tengslum við afsögn Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og svo við lækkun Standard & Poor's á lánshæfishorfum íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar.

Hvort þetta mun leiða til brotlendingar efnahagsins er enn óljóst. En það sem víst er að fjármagnsflæði fjárfesta eins og Baugs Group er enn óskert og er félagið hvorki að sameina hlutabréfaeignir né að losa sig við eignir. Fjöldi fjárfestinga félagsins í Evrópu hefur að einhverju leyti skýlt því frá mögulegum hörmungum á Íslandi og ef Baugur óttast að efnahagur íslenska ríkisins stefni í brotlendingu er það vissulega skiljanlegt að fyrirtækið auki eigur sínar erlendis.