Umrót í tengslum við útvarpsstjóraskipti hjá Ríkisútvarpinu (RÚV) leiddi til þess að eftirfylgni varð minni en hefði þurft með niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðum hjá Útvarpinu seint á síðasta ári. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag og segir að þetta hafi m.a. komið upp í umræðum stjórnar RÚV um slakari afkomutölur en búist var við. Við þetta bætist kostnaður vegna útvarpsstjóraskipta.

Á mánudagskvöld tilkynnti stjórn RÚV að útlit væri fyrir meira tap á rekstri fyrirtækisins en áætlanir gerðu ráð fyrir eða 357 milljónir króna á árinu öllu. Óskað hefur verið eftir óháðri úttekt á fjármálum RÚV.

Magnús Geir Þórðarson, sem nýverið tók við sem útvarpsstjóri, kynnti umfangsmikla uppstokkun á rekstri RÚV í gær í tengslum við slaka afkomu. Þar á meðal var framkvæmdastjórn RÚV sagt upp og skoðað að selja Útvarpshúsið eða breyta því svo það henti rekstri RÚV betur.