*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 12. nóvember 2020 07:03

Gleymska kostaði Nova 130 milljónir

Nova og móðurfélagi þess láðist að senda inn tímanlega umsókn um samsköttun og nýttist yfirfæranlegt tap því ekki sem skildi.

Jóhann Óli Eiðsson
Það hefur tæplega verið „allir úr“ stemning hjá Nova þegar úrskurðurinn lá fyrir.
Haraldur Guðjónsson

Það að gleyma að senda inn umsókn getur reynst dýrkeypt þegar upp er staðið. Þessu komst Premíum Nova hf., móðurfélag Nova hf., að um miðjan síðasta mánuð en það lenti milli skips og bryggju hjá stjórnendum félagsins að senda inn beiðni um samsköttun með dótturfélaginu. Afleiðingin var sú að álagður tekjuskattur móðurfélagsins, vegna tekjuársins 2018, hækkaði um 130 milljónir króna. Þetta er meðal þess sem felst í nýlegum úrskurði yfirskattanefndar (YSKN)

Forsaga málsins er að árið 2017 eignaðist Platínum Nova nærri alla hluti í símfyrirtækinu – af ríflega 1.548 milljón hlutum eru aðeins tveir ekki í eigu félagsins – og hugðust félögin nýta sér heimild tekjuskattslaganna til samsköttunar tekjuárið 2018. Í maí 2019 lágu ársreikningar þeirra fyrir og þeim var síðan skilað til ársreikningaskrár í byrjun júní. Skattframtölum var skilað í september en í þeim, líkt og í ársreikningunum, var gert ráð fyrir samsköttun félaganna.

Tveimur vikum síðar kom hins vegar babb í bátinn um tveimur vikum síðar. Þá barst Platínum Nova bréf frá Skattinum, þá Ríkisskattstjóra, þar sem tilkynnt var um að millifærslur félaganna vegna samsköttunar hefðu verið felldar niður. Ástæðan? Jú, láðst hafði að senda beiðni um samsköttun til Skattsins en hennar er ekki hægt að njóta án þess að umsókn liggi fyrir. Afleiðingin var sú að hjá móðurfélaginu hækkaði yfirfæranlegt tap úr 504,6 milljónum króna í 1.157 milljónir króna og að tekjur Nova í samskötturnarreit lækkuðu sem því nam.

Verður að ná athygli RSK

Skiljanlega vildi móðurfélagið ekki una þessu og kærði breytingu Skattsins. Var á það bent að félögin uppfylltu öll skilyrði tekjuskattslaganna um samsköttun. Hvorki í tekjuskattslögum né greinargerðum með breytingalögum á þeim væri að finna nokkrar kröfur um form umsókn til samsköttunar, aðrar en þær en að þær þurfi að hafa borist Skattinum innan tiltekins frests. Þá hefur reglugerðarheimild ráðherra, um nánari útfærslu á samsköttun, ekki verið sett.

Félögin bættu því við að í ársreikningi dótturfélagsins, það er Nova, hefði komið fram í skýringum áhrif samsköttunar með móðurfélaginu. Báðum ársreikningum hefði verið skilað löngu fyrir frestsdag umsókna um samsköttun og þau því glögglega látið í ljós þá ósk sína að nýta sér úrræðið. Nægjanlegar upplýsingar hefði verið að finna í ársreikningunum til að sannreyna hvort skilyrði laganna væru uppfyllt. Verulegur vafi væri uppi um það hvað teldist umsókn í skilningi téðs ákvæðis tekjuskattslaganna og þann vafa bæri að túlka félögunum í hag. Það er skemmst frá því að segja að Skatturinn hafnaði þessum rökum. YSKN staðfesti þá niðurstöðu.

„Eins og fram kemur í kæru er ekki kveðið á um sérstakt form umsóknar um samsköttun í [tekjuskattslögum] eða í öðrum settum reglum. Þegar litið er til tilgangs þess að áskilnaður er um sérstaka umsókn í þessum efnum má þó telja ljóst að setja verður hana fram nægilega skýrt til þess að með réttu megi vænta að beiðnin nái athygli ríkisskattstjóra og að hann fái tekið afstöðu til hennar við undirbúning álagningar. Í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefur verið litið svo á að nægilegt geti talist í þessu sambandi að viðeigandi færslur vegna samsköttunar séu færðar í skattframtölum hlutafélaga sem um ræðir,“ segir í úrskurði YSKN. Þar sem framtölunum var skilað í september, það er eftir að fresturinn rann sitt skeið þann 12. ágúst, var umsókninni hafnað. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Yfirskattanefnd NOVA