Fram kom í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á Stöð 2 í kvöld að í veðpakkanum sem lagður hefði verið fram af hálfu stjórnenda Glitnis gegn láni hjá Seðlabankanum hefði falist erlend eign í Noregi. Ekki kom fram hvaða eign það væri.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, sagði í Sjónvarpinu að fyrri veðpakkinn sem lagður hefði verið fram væri metinn á 750 milljónir evra og síðari veðpakkinn á 1.340 milljónir evra.

Upphæð lánsins sem óskað hefði verið eftir að Seðlabankinn veitti Glitni gegn þessum veðum næmi 600 milljónum evra.  "Ég fer til Davíðs Oddsssonar á fimmtudag vegna þess að ég lít á Seðlabanka Íslands sem samstarfsaðila íslenskra banka. [...] Ég segi honum jafnframt að við séum með lánapakka sem er mjög tryggur og góður og að ég sé að velta því fyrir mér hvort Seðlabankinn geti hugsanlega lánað okkur út á þennan pakka, semsagt gegn mjög góðum veðum," sagði Þorsteinn Már.

Davíð og Geir settu fram afarkosti

Þorsteinn Már gerði grein fyrir aðdragandum fyrir og um helgina og sagði að í húsakynnum Seðlabankans á sunnudagskvöld hefði Davíð Oddsson og Geir H. Haarde forsætisráðherra sett sér afarkosti. Þeir hefðu með öðrum orðum sagt að þeir vildu taka 75% hlut í bankanum.

Þorsteini Má hefði á sama fundi verið tjáð að engar aðrar lausnir væru í boði. " Á þessum tíma er líka búið að boða stjórnarandstöðuna til fundar og það er búið að taka þessa ákvörðun."

Hann sagði að það væru stærstu mistök sem hann hefði gert lengi að óska eftir aðstoð Seðlabankans. Bað hann hluthafa bankans afsökunar á því.