Það fer ekki á milli mála að mikil hagræðing mun nást ef af samruna Byrs og Glitnis verður og um það snýst allt þessa stundina.

Fjármálasérfræðingar sem Viðskiptablaðið hafði samband við nefndu tölur á bilinu þrír til fimm milljarðar króna í hagræðingu á ári.

Ef litið er á staðreyndir málsins er fækkun starfsfólks óumflýjanleg ef nýta á hagræðingarmöguleikana til fullnustu og er slíkt ávallt viðkvæmt mál. Erfitt er að fullyrða á hvorum vígstöðvunum fækkunin myndi eiga sér stað en hver svo sem hlutföllin yrðu er nokkuð öruggt að mörgum yrði sagt upp.

Starfsmenn Glitnis á Íslandi eru nú í kringum þúsund og um 230 manns starfa hjá Byr. Þar af starfa um 130 manns í höfuðstöðvum Byrs – í stoðdeildum – og hinir í útibúum.

Ef horft er til mikils stærðarmunar bankanna má áætla að til langs tíma litið verði fækkun starfsfólks ekki fjarri því sem heildarstarfsmannafjöldi Byrs er nú, sem sagt í kringum 200 manns. Það er þó nokkuð ljóst að ef af samrunanum verður munu stjórnendur fara hægt í sakirnar og breytingar á útibúum verða líklega með síðustu hnútum sem bundnir verða í ferlinu.

Sparisjóðir landsins hafa ávallt státað af ánægðum viðskiptavinum sem að miklu leyti kjósa viðskipti við þá fremur en bankana vegna persónulegrar þjónustu. Það kæmi því líklega illa við sameinaðan banka að loka öllum útibúum Byrs og senda viðskiptavinina í útibú Glitnis, þar sem ókunnug andlit þjónustufulltrúa tækju á móti þeim.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu um samruna Byrs og Glitnis í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .