Breska blaðið Financial Times hefur í gær eftir ónefndum heimildarmönnum að forráðamenn Glitnis hafi átt í frumviðræðum við erlenda fjárfesta um hugsanleg kaup á hlut í bankanum.

Már Másson, forstöðumaður kynningarmála bankans, segir að um orðróm sé að ræða og að engar viðræður hafi átt sér stað. Blaðamaðurinn David Ibison er skráður fyrir fréttinni, en hann hefur mikið fjallað um íslenskt efnahagslíf undanfarin misseri.

Í greininni er leitt að því líkum að mögulegir kaupendur yrðu annaðhvort fjárfestar sem hefðu komið auga á strategíska möguleika með kaupum í Glitni eða þá vogunarsjóðir eða einkafjárfestingasjóðir (e. private equity groups) sem teldu að gengi hlutabréfa hans of lágt og að gengi krónunnar myndi jafnframt styrkjast.

Financial Times hefur eftir Lárusi Welding, forstjóra Glitnis, að bankinn trúi því að alþjóðlegir fjárfestar sjái nú tækifæri á Íslandi þar sem gengi hlutabréfa hafi fallið og gengi krónunnar veikst.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í nóvember sagði Lárus að markmiðið væri að fá erlenda fjárfesta að bankanum.