Glitnir mun fá allt sitt til baka með vöxtum gangi áform franska samvinnufélagsins Lur Berri Cooperative holding eftir um að yfirtaka matvælafyrirtækið Alfesca. Þetta segir Ólafur Ólafsson, sem lengi hefur verið meðal stærstu hluthafa Alfesca. Félag hans, Kjalar Invest B.V., fer enn með um 40% hlutafjár í Alfesca en skuldir þess félags eru við gamla Glitni.

Ólafur segir að rekstur Alfesca hafi gengið vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður. „Markaðaðstæður hafa verið afar krefjandi og erfiðar á okkar markaðssvæðum undanfarin þrjú ár. Þá hefur verð á hráefni til matvælaframleiðslu hækkað mikið. Þrátt fyrir þetta hefur rekstur Alfesca gengið vel. Það hefur tekist að halda sölunni eða auka hana og rekstrarkostnaði hefur verið haldið í skefjum. Við erum með sterk vörumerki sem hafa selst vel þrátt fyrir almennan efnahagssamdrátt,“ segir Ólafur.

Keypt og selt

Hann segir að Alfesca hafi m.a. tekist að selja rekstrareiningu á Spáni, þar sem veltan var um 35 milljónir evra, en fjárfest í tveimur rekstrareiningum á móti. Ólafur segir að með þessu móti hafi uppbygging fyrirtækisins styrkst. „Ástandið á Spáni er mjög erfitt, mikið atvinnuleysi og erfiðleikar víða, og það var mikilvægt að ná að losa rekstrareininguna þar í landi út úr rekstrinum að okkar mati. Þetta var gæfuspor, þar sem það náðist að styrkja heildarumgjörð rekstrarins í kjölfarið.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.