Héraðsdómur Reykjavikur dæmdi á mánudaginn norska fyrirtækið Havfisk til að greiða slitastjórn Glitnis tæpa þrjá milljarða íslenskra króna, eða 158 milljónir norskra króna. Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómurinn veldur okkur miklum vonbrigðum og við teljum að dómari hafi komist að rangri niðurstöðu. Við munum þess vegna áfrýja dómnum til Hæstaréttar Íslands, segir Olav Holst Dyrnes, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í tilkynningu sem birtist meðal annars í Aftenposten.

Málið snýst um skiptasamning sem gerður var árið 2005. Slitastjórnin sendi Aker Seafoods, sem nú heitir Havfisk, kröfu árið 2010 upp á nærri 2 milljarða íslenskra króna auk vaxta vegna samningsins. Fyrirtækið taldi að samningnum hafi verið löglega rift árið 2008 og því bæri ekki að greiða kröfuna. Dómur féllst ekki á þann málatilbúnað.