Slitastjórn Glitnis hefur höfðað mál gegn Jóni Helga Guðmundssyni, sem löngum hefur verið kenndur við byggingavöruverslunina Byko. Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

DV fjallar um málið í dag og segir slitastjórnina krefja Straumborg, félag Jóns Helga og fjölskyldu hans, um þrjá milljarða króna vegna framvirkra samninga um hlutabréfakaup í Kaupþingi. Félagið keypti um miðjan desember árið 2007 hlut í Kaupþingi fyrir 6,4 milljarða króna.

Undir Straumborg er hluti af hlutafjáreign Jón Helga í Norvik, sem á Nóatún, Byko, Elko og Krónuna auk hlutar Jóns í Norvik-banka í Lettlandi og Rússlandi.

Deilt hefur vierið um uppgjör á samningnum og hefur slitastjórnin krafist þess að fá greitt rúma þrjá milljarða króna auk vaxtqa frá ársbyrjun 2009.

Straumborg var á meðal helstu hluthafa Kaupþings fyrir hrun samtímis því að Jón Helgi og félög hans voru stórir lántakendur hjá bankanum. Fram kemur í lánabók bankans sem lekið var á netið hafi lánveitingar Kaupþings til Straumborgar og félaga tengdum Jóni Helga numið rúmum 46 milljörðum króna í september árið 2008.