Glitnir fjármögnun hefur undirritað samning við Skýrr um prentun á öllu útsendu efni sviðsins á sviði breytilegrar prentunar, til dæmis reikninga og fylgiseðla. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Skýrr.


"Skýrr bauð Glitni fjármögnun hagkvæma heildarlausn fyrir þessa prentþjónustu og snérsníður hana fyrir þarfir sviðsins. Skýrr hefur langt skeið boðið atvinnulífinu breytilega prentun og pökkun á einum stað og öll starfsemin er gæða- og öryggisvottuð samkvæmt ISO 9001," segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr.

Viðskiptavinir Skýrr á sviði prentunar og pökkunar reikninga og breytilegrar prentunar eru mörg stærstu fyrirtæki landsins í fjármálageiranum, verslun, viðskiptum og þjónustu, ásamt íslenska ríkinu, ýmsum sveitarfélögum og opinberum stofnunum.

Boðið er upp á margs konar gagna- og upplýsingaöflun og tengda prentun fyrir viðskiptavini. Þjónustan er öll á einum stað og fyllsta öryggis er gætt í dulkóðun gagna og aðgangsstýringu.

Einnig er boðið upp á PDF-dreifingu, XML-þjónustu, uppflettikerfi og birtingu reikninga í netbönkum með beintengingu við RB.

Þjónustan felur meðal annars í sér úrvinnslu gagna, það er að koma gögnum úr upplýsingakerfum á fyrirfram prentuð form, svo eru prentgögnin sett í umslög og skilað til póstsendingar segir í tilkynningu Skýrr.