Glitnir hefur frestað fundi um fjármál heimilanna sem fara fram átti á Hilton Reykjavík Nordica í kvöld.

Í bréfi sem Glitnir hefur sent þátttakendum segir að þessi vika hafi verið viðburðarík hjá Glitni og mikið annríki verið vegna aðstæðna „sem öllum mega vera ljósar,“ eins og það er orðað. Þess vegna hafi verið ákveðið að fresta fundinum.

Fundurinn átti að fara fram undir yfirsögninni: Hvernig næ ég tökum á fjármálunum?

„Markmiðið með þessari frestun er að halda fundinn þegar meiri ró hefur færst yfir fjármálamarkaðinn og teljum við að hann verði um leið gagnlegri fyrir þá sem fundinn sækja,“ segir í tilkynningunni.

Þá biðst Glitnir velvirðingar á því hve seint fundinum er frestað.