Greiningardeild Glitnis hefur gefið út nýtt verðmat á Alfesca og metur félagið á 280 milljónir evra (26 milljarðar króna) sem gefur verðmatsgengið 4,4, en gengi félagsins er nú 3,89.

Síðasta verðmat greiningardeildarinnar var gert í mars 2006 og var niðurstaða þess verðmatsgengið 4,6.

"Á grundvelli verðmatsins mælum við með að fjárfestar kaupi bréf í Alfesca. Er það ráðgjöf okkar til lengri tíma litið. Við mælum með að fjárfestar undirvogi bréf Alfesca í eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum og er það skoðun okkar til skemmri tíma litið," segir greiningardeildin og bætir við:

"Rekstur Alfesca er mjög háður laxaverði en laxaverð er nú í sögulegu hámarki, það skapar óvissu um afkomuna á næstu fjórðungum. Til lengri tíma er hins vegar líklegt að laxaverðið muni lækka og þá mun hagur Alfesca vænkast."