Mál slitastjórnar Glitnis á hendur endurskoðendafyrirtækinu PricewaterhouseCoopers (PwC) var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Bæði er um að ræða mál slitastjórnar gegn PwC hér á landi og í Bretlandi.

Slitastjórnin sakar PwC um að hafa ekki sinnt endurskoðendastörfum sínum með lögmætum hætti og afleiðingin verið sú að ársreikningur Glitnis árið 2007 og árshlutareikningar hafi verið rangir, ekki rétt greint frá tengslum aðila og þar fram eftir götunum. Uppgjörin hafi í raun dregið þá mynd upp af bankanum að rekstur hans hafi litið út fyrir að vera traustari en raunin var. Hluthafar, lánardrottnar og fleiri byggðu mat sitt á stöðu bankans á uppgjörunum.

Stefnan var birt PwC á Íslandi 31. janúar í fyrra og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. apríl í fyrra.