*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 22. nóvember 2011 14:34

Glitnir gerir upp við Seðlabanka Lúxemborgar

Glitnir hefur greitt að fullu eftirstöðvar skulda Glitnis við Seðlabanka Lúxemborgar. Krafa bankans nam 173 milljörðum króna.

Ritstjórn
Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri Glitnis (tv) og Árni Tómasson fyrrverandi formaður skilanefndar Glitnis (th) ásamt Yves Mersch, Seðlabankastjóra Lúxemborgar eftir að gengið hafði verið frá fullnaðargreiðslu á eftirstöðvum lánsins. Það voru þeir Krist
Aðsend mynd

Glitnir og Seðlabankai Lúxemborgar (BCL) tilkynntu í dag að búið sé að greiða að fullu eftirstöðvar skulda Glitnis við seðlabankann. Í tilkynningu frá Glitni segir að með því sé mikilvægum áfanga náð í endurskipulagningu dótturfélags Glitnis í Lúxemborg. Upphaflega var áætlað að endurgreiðslum lyki í árslok 2013. 

„Í mars 2009 lauk endurskipulagningu dótturfélags Glitnis í Lúxemborg með uppgjöri millibankaskulda og við innstæðueigendur.  Þá stóð BCL eftir sem eini kröfuhafinn, með kröfu upp á rúmlega 1 milljarð evra (173 milljarðar ISK) sem tryggð var með veði í umtalsverðu eignasafni,“ segir í tilkynningunni.

„Samkomulag sem náðist í mars 2009 tryggði mikilvæga hagsmuni Glitnis og annarra sem áttu hagsmuna að gæta gagnvart bankanum. Samkomulagið gerði Glitni kleyft að vinna úr eignum á markvissan hátt yfir fimm ára tímabil og tryggði að dótturfélagið gat farið í skipulega slitameðferð.  Samkvæmt samkomulaginu voru lánasöfn bankans, sem veðsett voru BCL, áfram í umsjá skilanefndar Glitnis á Íslandi, en þau innihéldu m.a. lán til íslenskra viðskiptavina Glitnis. Í samkomulaginu fólst að innheimt andvirði evrópskra fasteignalánasafna Glitnis í Lúxemborg var nýtt að fullu til að endurgreiða skuldina við BCL.

Þessum endurgreiðslum er nú lokið rúmum tveimur árum á undan áætlun, en upphaflega var gert ráð fyrir að þeim lyki í árslok 2013. Eignir hafa reynst mun verðmætari en upprunalega var áætlað og auðveldara að koma þeim í verð.“

Yves Mersch, seðlabankastjóri Lúxemborgar segir í tilkynningu að fullnaðargreiðslu skulda Glitnis við bankann tveimur árum á undan áætlun sanni að það hafi verið rétt ákvörðun að semja um endurgreiðslu miðað við innheimtu lánasafna. „Samkomulagið tryggði hagsmuni BCL, evrukerfisins og innlánseigenda, kröfuhafa og hluthafa Glitnis. Niðurstaðan varð framúrskarandi og ber vitni um dugnað og fagmennsku allra þátttakenda."

Úr tilkynningu Glitnis:

Dótturfélag Glitnis í Lúxemborg, sem hætti hefðbundinni bankastarfsemi í október 2008 í kjölfar falls móðurfélagsins, lagði fram áætlun um endurskipulagninguna sem allir kröfuhafar samþykktu í mars 2009. Það voru KPMG í Lúxemborg og stjórnendateymi dótturfélagsins sem stýrðu endurskipulagningunni í náinni og góðri samvinnu við skilanefnd bankans á Íslandi og BCL. Með þessari niðurstöðu hefur Glitnir í Lúxemborg gert upp allar skuldir sínar í Lúxemborg og á alþjóðavettvangi. 

Eric Collard, slitastjóri Glitnis Lúxemborg, segir: „Með þessu er lokið mjög árangursríkri endurskipulagningu sem hófst snemma í október 2008. Hún felur í sér að gert hefur verið að fullu upp við alla kröfuhafa vegna innstæðna, millibankaskulda og viðskiptakrafna. Eftir er áframhaldandi vinna við að hámarka og innheimta útistandandi eignir og miðar því verki samkvæmt. áætlun. Jafnvel í erfiðustu málum geta fundist lausnir sem leiða til niðurstöðu sem er umfram væntingar.  Þessari  frábæru niðurstöðu reyndist hægt að ná með því að leggja áherslu á heilbrigða skynsemi og með því að laða fram það besta hjá þeim sem lögðu hönd á plóginn hjá BCL og skilanefnd Glitnis og með fullum stuðningi stjórnendateymis Glitnis í Lúxemborg.“

Helstu eignir Glitnis Lúxemborg sem eftir standa, til viðbótar lánasöfnunum sem veðsett voru, eru lán til evrópskra fasteignafjárfesta og eignir sem bundnar eru í fasteignasöfnum í nokkrum Evrópulöndum. Endurheimtur þessara eigna munu auka heildarendurheimtur kröfuhafa Glitnis á Íslandi.

Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri Glitnis á Íslandi segir: „Við hjá Glitni lýsum mikilli ánægju með samstarfið við Seðlabanka Lúxemborgar, sem með samkomulagi árið 2009 veitti okkur svigrúm til að vinna úr þeirri þröngu stöðu sem bankinn var þá kominn í. Með samningnum tókst gera upp við alla kröfuhafa í Lúxemborg að fullu og að auka endurheimtur kröfuhafa móðurfélagsins um 1,3 milljarða evra (213 milljarðar ISK) sem annars hefðu tapast. Samningurinn var einnig mjög mikilvægur fyrir íslenskt atvinnulíf, því með honum var tryggt að lán íslenskra fyrirtækja, sem voru í lánasöfnunum og voru veðsett Seðlabankanum, færu ekki á markað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Ráðgjafar Glitnis í Lúxemborg eru Reviva Capital SA, sérhæft eignastýringarfyrirtæki í Lúxemborg. Ráðgjafar BCL voru breska ráðgjafafyrirtækið AgFe.

 

Stikkorð: Glitnir