*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 26. október 2017 10:36

Glitnir græðir á sölu Refresco

Slitabúið gerði sérstakan afkomusamning um söluna á söluna á Stoðum vegna væntinga um yfirtöku Refresco.

Ritstjórn

Hagnaður íslenskra fjárfesta af sölu Refresco Gerber til franskra og kanadískra fjárfesta mun að hluta til renna til slitabús Glitnis.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær fær Ferskur Holding, félag sem er að hluta til í eigu Stoða, áður FL group, tæplega 30 milljarða króna í sinn hlut vegna yfirtöku fjárfestingarsjóðanna PAI Partners og British Columbia Investment Managament á félaginu.

Ferskur Holding er stærsti einstaki eigandi Refresco Gerber, með 14,53% eignarhlut, en það félag er meðal annars í eigu eignarhaldsfélagsins Stoða, Kaupþings og dótturfélags Arion banka.

Stoðir fá tæpa 13 milljarða

Eignarhlutur Stoða í gegnum Ferskur Holding nemur 8,9%, og var virði hlutarins 12,7 milljarðar í lok síðasta árs. Miðað við yfirtökugengið er andvirði hlutarins komið upp í 17,9 milljarða, sem gerir 41% hækkun á virði á innan við ári að því er Fréttablaðið greinir frá.

Einkahlutafélögin S121 og S122, sem eru í eigu TM og hóps íslenskra fjárfesta, keyptu 50,2% hlut í Stoðum í apríl síðastliðnum af Glitni, sem var fyrir kaupin stærsti hluthafinn í félaginu ásamt nokkrum erlendum fjármálastofnunum.

Í kaupunum fólst sérstakur afkomusamningur sem tryggði slitabúi Glitnis hlutdeild í framtíðarhagnaði af sölu Refresco vegna væntinga um yfirtöku á félaginu.

Stikkorð: Glitnir Stoðir Refresco