Hagnaður íslenskra fjárfesta af sölu Refresco Gerber til franskra og kanadískra fjárfesta mun að hluta til renna til slitabús Glitnis.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær fær Ferskur Holding, félag sem er að hluta til í eigu Stoða, áður FL group, tæplega 30 milljarða króna í sinn hlut vegna yfirtöku fjárfestingarsjóðanna PAI Partners og British Columbia Investment Managament á félaginu.

Ferskur Holding er stærsti einstaki eigandi Refresco Gerber, með 14,53% eignarhlut, en það félag er meðal annars í eigu eignarhaldsfélagsins Stoða, Kaupþings og dótturfélags Arion banka.

Stoðir fá tæpa 13 milljarða

Eignarhlutur Stoða í gegnum Ferskur Holding nemur 8,9%, og var virði hlutarins 12,7 milljarðar í lok síðasta árs. Miðað við yfirtökugengið er andvirði hlutarins komið upp í 17,9 milljarða, sem gerir 41% hækkun á virði á innan við ári að því er Fréttablaðið greinir frá.

Einkahlutafélögin S121 og S122, sem eru í eigu TM og hóps íslenskra fjárfesta, keyptu 50,2% hlut í Stoðum í apríl síðastliðnum af Glitni, sem var fyrir kaupin stærsti hluthafinn í félaginu ásamt nokkrum erlendum fjármálastofnunum.

Í kaupunum fólst sérstakur afkomusamningur sem tryggði slitabúi Glitnis hlutdeild í framtíðarhagnaði af sölu Refresco vegna væntinga um yfirtöku á félaginu.