Eftir að hafa verið krafið af embætti ríkisskattstjóra um endurálagningu virðisaukaskatts vegna þjónustu sem keypt var af erlendum ráðgjöfum 2009 til 2013 hefur slitabú Glitnis fallist á að greiða tæplega 1,8 milljarða króna til ríkissjóðs, að því er kemur fram í frétt Morgunblaðsins.

Skattayfirvöld hafa farið fram á frekari greiðslur en Glitnir hefur hins vegar ekki samþykkt ákvörðun ríkisskattstjóra að öllu leyti.

Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri Glitnis, segir í samtali við Morgunblaðið að erindi hafi borist frá ríkisskattstjóra í kjölfar dómsmála þar sem fram hafi komið ný viðmið um undir hvaða kringumstæðum sé skylt að greiða virðisaukaskatt af kaupum á erlendri þjónustu.

Kristján segir að sú ákvörðun að greiða ekki virðisaukaskatt af slíkri þjónustu hafi á sínum tíma byggst á ráðgjöf frá skattasérfræðingum. Aðkeyptur erlendur lögfræði- og ráðgjafarkostnaður Glitnis 2009-2013 nemur um 27 milljörðum.