Greiningardeild Kaupþings og Landsbankans segja að kaupverð Glitnis á finnska fjármálafyrirtækinu FIM ekki ódýrt.

Glitnir greiðir átta evrur á hlut sem samsvarar um 30 milljörðum króna eða um 341 milljón evra markaðsverðmæti fyrir félagið allt. Helmingur kaupverðsins er greiddur með nýjum hlutabréfum í Glitni og helmingur með lausafé. Um er að ræða 68,1% í félaginu, samkvæmt tilkynningu.

?Við teljum ljóst að afkoman verði að batna töluvert til að réttlæta kaupverðið. Það liggur því ljóst fyrir að mikill þrýstingur verður á stjórnendur Glitnis að ná fram samlegðaráhrifum sem fyrst,? segir greiningardeild Landsbankans.

?Í bráðabirgðauppgjöri FIM kemur fram að eigið fé félagsins hafi staðið í 100,1 milljón evra í árslok (um 8,9 milljarðar króna.). Var arðsemi eigin fjár félagsins því um 15% á liðnu ári. Þar af nemur viðskiptavild í bókum félagsins um 41,3 milljónum evra (3,7 milljarðar króna), samkvæmt níu mánaða uppgjöri félagsins.

Sé miðað við ofangreint 341 milljón evra heildarkaupverð á FIM fæst V/I hlutfallið (e. price to book) 3,4x. Miðað við 13,3 milljón evra hagnað félagsins á liðnu ári fæst jafnframt V/H hlutfallið (e. price to earnings) 25,6x, og sé leiðrétt fyrir tveggja milljón evra óreglulegum kostnaði fæst V/H hlutfallið 23,1x. Félagið virðist því ekki ódýrt miðað við kennitölur ársins 2006, sér í lagi miðað við V/H hlutfallið sem er eðlilegra að horfa til hjá félögum eins og þessum sem hafa hlutfallslega litla eiginfjárbindingu.

Í þessu sambandi þarf þó að hafa í huga að Glitnir borgar allt að helming kaupverðsins með nýjum bréfum í bankanum, en það er í fyrsta skipti sem bankinn notar eigin bréf sem gjaldmiðil í erlendri yfirtöku,? segir greiningardeild Kaupþings.