Héraðsdómur Reykjavikur hafnaði því á dögunum að krafa sem Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsmaður vildi að yrði viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú Glitnis yrði viðurkennd sem slík. Krafan hljóðaði upp á 28,5 milljónir króna.

Málavextir eru þeir að Ingvi Hrafn var leigutaki laxveiðiárinnar Langár á Mýrum í Borgarfirði um langt árabil. Hann leigði ána af hlunnindabændum árinnar og sá hann síðan um að selja veiðimönnum veiðileyfi í ána. Í greinargerð Ingva Hrafns fyrir dómi kom fram að Glitnir hafi sóst eftir viðskiptum við Ingva Hrafn árið 2006 með því að kaupa af honum veiðileyfi í Langá. Ári síðar hafi Glitnir aftur keypt veiðileyfi af Ingva Hrafni. Þessu mótmælir Glitnir ekki. Aftur á móti er ágreiningur um hvort haustið 2007 hafi Glitnir pantað veiðidaga í ánni fyrir árið 2008 eða ekki.

Ingvi Hrafn hélt því fram fyrir dómi að samið hefði verði um kaup á veiðidögum 2008 en áður en þeir dagar runnu upp hafi Ingvi Hrafn áttað sig á því að Glitnir ætlaði ekki að standa við samkomulagið. Hann hafi þá verið búinn að neita öðru fólki um daga í ánni. Honum hafi ekki tekist að selja veiðidagana annað í tæka tíð og því orðið fyrir miklum fjárhagslegum skaða. Glitnir hafnar því hins vegar alfarið að hafa nokkurn tíma samið um kaup á veiðidögum árið 2008.

Þegar skuld vegna viðskiptanna sem deilt er um voru ógreidd við fall bankann ákvað Ingvi Hrafn að gera kröfu í bú Glitnis. Þeirri kröfu var hafnað af slitastjórn. Jafnframt ákvað slitastjórnin að fara með málið fyrir dómstóla. Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að það sé Ingva Hrafns að sanna að Glitnir hafi pantað dagana árið 2008. Það hafi honum ekki tekist að gera. Því beri að hafna kröfunni.