Glitnir hefur áhuga á að ná fótfestu í Rússlandi í gegnum finnska fjármálafyrirtækið FIM Group, að sögn Frank O. Reite, sem mun taka sæti í stjórn FIM í kjölfar kaupa Glitnis á félaginu.

Í samtali við finnska viðskiptablaðið Kauppalehti segir Reite að hann hafi trú á getu FIM til að stýra sjóðum frá Rússlandi, en með kaupunum á félaginu ætlar Glitnir sér að taka þátt í fjárfestingum hlutabréfasjóða sem fjárfesta á þróunarmarkaðssvæðum, svo sem Rússlandi.

Reite segir Rússland framtíðarmarkað og hann telur Finnland nú einn af heimamörkuðum Glitnis, ásamt Íslandi og Noregi.

Glitnir samþykkti að kaupa FIM í febrúar síðastliðnum fyrir um 340 milljónir evra.