*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 28. desember 2007 17:59

Glitnir hefur þegar tekið á flestum ábendingum FME

segir talsmaður

Ritstjórn

Glitnir hefur unnið að úrlausnum um það hvað betur megi fara í viðskiptum bankans á verðbréfamarkaði, frá því að Fjármálaeftirlitið tók þennan þátt hjá Glitni í úttekt í mars síðastliðnum. Fjármálaeftirlitið kom með ýmsar ábendingar til úrbóta. 

“Það hefur verið tekið á flestum af þessum ábendingum sem Fjármálaeftirlitið gerir,” segir Vala Pálsdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla Glitnis, í samtali við Viðskiptablaðið.

“Þetta var reglubundið eftirlit og það hafa ekki komið upp tilvik er lúta að þessum ábendingum,” segir hún.

Athugunin var afmörkuð við eignastýringu, einkabankaþjónustu, miðlun og eigin fjárfestingar, kínamúra og regluvörslu.

Jafnframt hefur bankinn innleitt Mifid-löggjöfina frá því að úttektin átti sér stað, sem er ný löggjöf á sviði verðbréfaviðskipta sem kveður m.a. á um aukna fjárfestavernd, en hún tekur á mörgum af ábendingum Fjármálaeftirlitsins, að sögn Völu.

“Þá er vert að taka það fram, að meirihluti ráðgjafa sem sinnir verðbréfaviðskiptum, hafa allir staðist próf í verðbréfamiðlun.”

 Í frétt Fjármálaeftirlitsins stendur að það gerir athugasemd við að almennt hafi verið of lítil áhersla lögð á að starfsmenn Glitnis kynntu sér og framfylgdu verklagsreglum. “Það er einn af þeim þáttum sem Mifid tekur á og er það afdráttarlaust að starfsmenn Glitnis fylgja verklagsreglum að fullu í dag,” segir Vala.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við staðsetningu greiningardeildar innan markaðsviðskiptasviðs,  með tilliti til reglna um kínamúra.

“Þetta er eitthvað sem við munum vinna með FME að leysa,” segir hún en bendir enn fremur á að slíkt fyrirkomulag sé hjá öllum dótturfélögum Glitnis á Norðurlöndum. “Þar tíðkast þetta og er viðurkennt. “