Fjárfestahópur tengdur Finni Ingólfssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra og seðlabankastjóra, er á meðal hugsanlegra kaupenda að hluta þess hlutafjár sem Glitnir hefur sölutryggt í tengslum við væntanlega skráningu Icelandair í Kauphöll Íslands.

Jón Diðrik Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Glitni sem hefur umsjón með skráningu Icelandair, sagði samtali við Viðskiptablaðið í gær að bankinn hafi leitt saman hóp ótengdra fjárfesta og að hann hafi nú fengið kaupendur að stórum hluta þess hlutafjár sem bankinn sölutryggir.

Glitnir greindi nýlega frá því að bankinn hefði samþykkt að sölutryggja 51% af hlutafé Icelandair vegna væntanlegar skráningar félagins og segja heimildamenn Viðskiptablaðsins það ólíklegt að Glitnir myndi sölutryggja hlutinn án þess að hafa fengið "sterkar vísbendingar" um áhuga fjárfesta. Heildarvirði (e. enterprise value) Icelandair er talið vera 43 milljarðar króna.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja Finn hafa sterkan hóp á bak við sig en bæta við að landslagið geti breyst á stuttum tíma og að ekki sé tryggt að hópurinn taki stöðu í Icelandair. Einnig benda þeir á að fleiri fjárfestar, og jafnvel stjórnendur, hafi áhuga á að fjárfesta í félaginu.