Örlög Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is, gætu ráðist á fundi Glitnis í dag. Staða félagsins er það erfið að ekki var unnt að greiða öllum starfsmönnum fyrirtækisins laun fyrir helgi.

Í Morgunblaðinu á laugardag kom fram að hópur fjárfesta væri að undirbúa tilboð í félagið. Sá hópur hefði áhuga á því að koma að rekstri útgáfunnar í samvinnu við Glitni. Í þeim hópi væru m.a. eigendur útgáfufélagsins Valtýs.

Ráðherra vill tryggja meira gagnsæi

Tilmæli viðskiptaráðherra gætu þó sett strik í reikninginn en hann boðaði fyrir helgi að hann vildi tryggja meira gagnsæi og betri upplýsingagjöf um söluferli á fyrirtækjum sem fallið hefðu í hendurnar á ríkisbönkunum.

Hagfræðingar og fjárfestar, eins og Hallbjörn Karlsson fjárfestir, hafa gagnrýnt að þeir sem áhuga hafa á að kaupa fyrirtæki í fjárhagskröggum sitji ekki við sama borð innan bankanna og fyrrverandi eigendur þeirra.