Glitnir hefur á þessu ári gefið út skuldabréf að jafnvirði þriggja milljarða evra (um 270 milljarðar króna) og þannig tryggt endurfjármögnun bankans vegna ársins 2007, segir í tilkynningu.

Skuldir Glitnis (móðurfélagsins) með gjalddaga á næsta ári voru um 2,7 milljarðar evra (um 242 milljarðar króna) en vegna sterkrar lausafjárstöðu undanfarið hefur bankinn keypt til baka hluta þeirra skuldabréfa. Bankinn á nú lausafé til að mæta öllum gjalddögum skulda á næsta ári.

Í júlí síðastliðnum gaf Glitnir út skuldabréf í Bandaríkjunum að andvirði 450 milljóna dollara. Í júlí og ágúst gaf bankinn út til viðbótar skuldabréf að jafnvirði 700 milljóna evra til ýmissa fjárfesta í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Þessar skuldabréfaútgáfur hafa verið til fimm til tíu ára á kjörunum 65-80 punktar yfir libor en kjör á lánamarkaði bötnuðu umtalsvert eftir að Glitnir birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í byrjun ágúst. Nýjasta skuldabréfaútgáfa bankans til fimm ára var þannig á kjörunum 65 punktar yfir libor að kostnaði meðtöldum.

Glitnir hefur lagt ríka áherslu á að styrkja lausafjárstöðu bankans á þessu ári til að tryggja endurfjármögnun næsta árs. Þessi vinna hefur gengið mjög vel við óstöðugar markaðsaðstæður, segir í tilkynningunni.

Stefna bankans er að hafa ávallt nægilegt handbært fé til að mæta allri fjárþörf næstu sex mánaða, bæði vegna skammtíma- og langtímalána og handbært fé og auðseljanlegar fjáreignir sem nema allri fjárþörf næstu 12 mánaða.

Handbært fé Glitnis um þessar mundir nemur um 2,5 milljörðum evra (225 milljarðar króna) sem jafngildir 111% af fjármögnunarþörf næstu sex mánaða. Handbært fé og auðseljanlegar fjáreignir nema 130% af fjármögnunarþörf næstu tólf mánaða. Þessi hlutföll endurspegla sterka lausafjárstöðu bankans um þessar mundir.