Greining hefur uppfært verðmat sitt á Marel. Verðmatsgengi á Marel hefur verið hækkað úr 66,3 í 70,8 kr. á hlut. Í ljósi verðmatsins mælum þeir með að fjárfestar haldi bréfum sínum í Marel.

"Ráðgjöf okkar til skemmri tíma er að markaðsvoga bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum. Í ráðgjöfinni felst að við höfum trú á að bréf Marel muni skila áþekkri ávöxtun og markaðurinn í heild horft til næstu 3-6 mánaða," segir í greiningu þeirra.

Rekstrarspá hefur verið uppfærð eftir kaup félagsins á AEW Thurne og Delford Sortaweigh Kaupverðið á AEW og Delford var að mati Greiningar Glitnis hagstætt og hefur innkoma félaganna jákvæð áhrif til lengri tíma litið. Uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung var undir væntingum okkar. "Horfur fyrir næstu fjórðunga eru hins vegar nokkuð bjartar, verkefnastaða er mjög góð og gengi krónunnar hefur lækkað," segir í Morgunkorni Glitnis.