Glitnir hefur ákveðið að hækka vexti í framhaldi af vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands um 0,75 próstentustiga hækkun stýrivaxta, segir í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að ákveðið hafi verið að hækka óverðtryggða vexti bankans um 0,70-0,75 prósentustig. Breytingin tekur gildi frá og með 1. apríl.

Jafnframt hefur Glitnir ákveðið að hækka vexti á verðtryggðum húsnæðislánum sínum um 0,12 prósentustig.

Vextir nýrra lána til viðskiptamanna bankans hækka því úr 4,48% í 4,60%.

Breytingin, sem tekur gildi 31. mars, hefur hins vegar engin áhrif á kjör þeirra fjölmörgu sem tekið hafa húsnæðislán Glitnis til þessa, segir í tilkynningunni.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, segir ýmis merki um þenslu í hagkerfinu um þessar mundir.

?Viðbrögð okkar við auknu aðhaldi í peningamálastefnunni er að tryggja áhrif aðhaldsaðgerðanna á verðtryggð vaxtakjör. Þess vegna hækkum við nú einnig verðtryggða vexti nýrra húsnæðislána samhliða breytingu á óverðtryggðum vöxtum," segir Bjarni.