Forsvarsmenn Glitnis [ GLB ] ákváðu síðdegis að skjóta á frest áformum um að leggja í alþjóðlegt skuldabréfaútboð, í kjölfar gagngerrar athugunar á áhuga fjárfesta í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu. Bankinn hefur ráðist í slíkt útboð í ársbyrjun undanfarin ár og hafa þau borið góðan árangur.

Ingvar H. Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis, segir að ástæðan fyrir þessari frestun sé einföld, þ.e. bágbornar aðstæður á fjármálamörkuðum. Hann bendir á í því sambandi að Bandaríkjamarkaður sé í mikilli lægð um þessar mundir, t.d. tilkynnti Citigroup, stærsti banki Bandaríkjanna, í vikunni að hann þyrfti að afskrifa 18 milljarði dala, ásamt því að lánshæfismat hans var lækkað. Miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum hafi einnig gert Glitni erfitt fyrir varðandi útgáfuþreifingar.

„Skuldatryggingarálag á bönkum hækkar líka almennt, þó svo að heldur hafi þokast í rétta átt hérlendis í þeim efnum eftir aðgerðir Seðlabankans. Skuldatryggingarálagið á íslensku bankana rauk upp í seinustu viku í kjölfar fregna af erfiðleikum Gnúps og við vorum svo að segja í miðri könnunarferð þegar fregnir bárust af þeim hækkunum, fregnir sem voru ekki til þess fallnar að auðvelda málið. Allar þessar hreyfingar og núverandi aðstæður eru einfaldlega þannig að við kjósum að fresta þessum áformum í bili,” segir Ingvar.

Munu fylgjast með tækifærum

Ingvar segir að fundahöld fulltrúa bankans með fjárfestum seinustu vikur hafi verið ánægjuleg þótt niðurstaðan hafi orðið þessi. „Við hittum marga af núverandi fjárfestum í bankanum og fengum ágætis viðtökur og viðbrögð á fundum, en markaðsaðstæður eru afar erfiðar, óháð Glitni sem slíkum. Á þessum fundum er ekki verið að ræða kaup og kjör á tiltekinni útgáfu, heldur vilja menn hittast augliti til auglitis og fara yfir stöðuna og hvað hefur gerst frá seinasta fundi. Það gekk prýðilega og þessi ferð og fundahöld mun því nýtast okkur þegar við ráðumst í útgáfu, hvenær sem það verður nákvæmlega. Staða bankans er sterk og við munum áfram fylgjast með mörkuðum og vera opnir fyrir tækifærum á skuldabréfaútgáfu.“