Glitnir og LNJ Bhilwara Group, sem er með starfsemi á Indlandi og í Nepal, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um samstarf við byggingu jarðvarmavirkjana á Indlandi og í Nepal.

Í fréttatilkynningu vegna samningsins segir að í samstarfinu muni Glitnir leggja til sérfræðiþekkingu á sviði jarðvarma og skapa fjárhagslega umgjörð um verkefni sem tengjast jarðvarmavirkjunum. LNJ Bhilwara Group mun sjá um þróunarvinnu og stjórn verkefnisins á staðnum en Glitnir og LNJ Bhilware Group munu vinna saman að þróun viðskipta- og verkefnaáætlunar.

Viðstaddir undirritun viljayfirlýsingu voru P. Chidambaram, fjármálaráðherra Indlands og Árni Mathisen, fjármálaráðherra Íslands. Viljayfirlýsingin var undirrituð af Awadh B. Giri, framkvæmdastjóra orkusviðs LNJ Bhilwara Group og Bala Murughan Kamallakharan, forstöðumaður á þróunarsviði Glitnis.

Að þessu tilefni er haft eftir Magnúsi Bjarnasyni framkvæmdastjóra alþjóðasviðs Glitnis: „Glitnir hefur náð góðum árangri í verkefnum sínum í Kína þar sem við lögðum til tækniþekkingu og fjármögnuðum verkefni í Xian Yang héraði. Við höfum trú á að hægt sé að þróa svipuð verkefni hér á Indlandi.”