Glitnir banki hf. hefur skrifað undir samning við Invik & Co. AB, sem er skráð í sænsku kauphöllinni, um kaup á öllum hlutum í sænska verðbréfafyrirtækinu Fischer Partners Fondkommission AB.

Fischer Partners var með 4,4% markaðshlutdeild á norræna verðbréfamarkaðnum utan Íslands, á fyrsta ársfjórðungi 2006, sem gerir það að sjötta stærsta verðbréfafyrirtæki Norðurlanda. Kaupverð er SEK 380 milljónir, eða 3,7 milljarðar íslenskra króna.

Glitnir Securities í Noregi og Fischer Partners í Svíþjóð verða öflugir samherjar á Norrænum verðbréfamarkaði. Kaupin styrkja stöðu Glitnis í Noregi og renna stoðum undir frekari vöxt í Skandinavíu, sagði Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis.

Fischer Partner er eitt af leiðandi verðbréfafyrirtækjum í Skandinavíu og var markaðshludeild félagsins utan Íslands 4,4% á norræna verðbréfamarkaðnum á fyrsta ársfjórðungi 2006.

Samanlögð markaðshlutdeild Fischer Partners og Glitnir Securities á fyrsta ársfjórðungi var 5,7% í Noregi. Fischer Partners er aðili að kauphöllunum í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Ósló auk Riga, Tallin, Vilníus, Varsjá og Eurex.

Yfirtakan er háð samþykki bæði sænska og íslenska fjármálaeftirlitsins og er gert ráð fyrir að kaupunum verði lokið á þriðja ársfjórðungi.