Engar eignir fundust í þrotabúi Fjárfestingarfélagsins Kletts ehf., fyrrum eignarhaldsfélags Baugs Group. Gjaldþrotaskiptum á félaginu lauk í síðasta mánuði. Lýstar kröfur í búið námu tæpum 240 milljónum en samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins var eigið fé neikvætt um 1.086 milljónir króna. Honum var skilað fyrir árið 2010. Að sögn skiptastjóra voru engar eignir eftir í búinu.

Ör breyting á eignarhaldi
Eignarhald á Kletti var á töluverðu reiki á árunum 2007 og 2008. Í október 2007 var félagið sameinað fjórum öðrum félögum sem öll voru í eigu Baugs. Félögin fjögur voru sameinuð undir nafni Kletts. Skömmu síðar, á síðasta degi ársins 2007, seldi Baugur allt hlutafé í Kletti til Fjárfestingarfélagsins Smára ehf. Það var í eigu Jóns Auðuns Jónssonar og Páls Pálssonar samkvæmt  ársreikningi. Smári greiddi rúmlega 827 milljónir í reiðufé fyrir allt hlutafé í Kletti til Baugs, samkvæmt kaupsamningi. Auk þess tók Smári yfir 327 milljóna kröfu á hendur Kletti.

Tveimur dögum síðar, þann 2. janúar 2008, gerði félagið Hrafnabjörg, annað félag í eigu Baugs, samning við Fjárfestingarfélagið Smára um að Hrafnabjörg eigi rétt á að kaupa allt hlutafé í Kletti fyrir eina krónu. Því var um að ræða kaupréttarsamning þar sem hlutaféð var metið á eina krónu. Hvergi í samningum milli Smára og Hrafnabjarga kemur fram að fjárhæðir skipti um hendur, nema áðurnefnd ein króna við yfirtöku á hlutafé. Rétt eins og Klettur hafa Hrafnabjörg verið úrskurðuð gjaldþrota.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.