Í nýrri þjóðhagsspá Glitnis er gert ráð fyrir að landsframleiðsla verði óbreytt að raungildi á þessu ári miðað við nýliðið ár.

Næstu ár munu markast að mati Glitnis af áframhaldandi bata á utanríkisviðskiptum, auk þess sem innlend eftirspurn mun rétta úr kútnum að nýju með lægri vöxtum, batnandi aðgangi að lánsfé, betri horfum á eignamörkuðum, áframhaldandi vexti kaupmáttar og frekari uppbyggingu í orkufrekum iðnaði og þjónustu.

Þá gerir greiningadeild Glitnis ráð fyrir því að hagvöxtur aukist jafnt og þétt allt til loka spátímans, verði í námunda við jafnvægisvöxt á næsta ári en ríflega 4% á seinustu árum spátímans, eða til 2011.

„Þrátt fyrir myndarlegan vöxt mun þjóðarbúskapurinn að líkum einkennast af betra jafnvægi ytra sem innra. Viðskiptahalli mun þannig minnka og verðbólga verða í námunda við markmið Seðlabankans á síðari hluta spátímans,“ segir í morgunkorninu.

Jafnvægi á vinnumarkaði

Greiningadeildin segir að samfara minni spennu í hagkerfinu muni draga úr eftirspurn á vinnumarkaði og við það muni atvinnuleysi aukast jafnt og þétt. Þó er tekið fram að það muni ekki fara verulega yfir það hlutfall sem samrýmist jafnvægi á vinnumarkaði

„Nokkur óvissa ríkir um það í hversu ríkum mæli erlendir ríkisborgarar, sem hingað hafa flutt í miklum mæli undanfarin ár til að mæta eftirspurn á vinnumarkaði, muni flytja aftur af landi brott. Við gerum þó ráð fyrir að verulegur hluti þeirra muni hverfa á braut, annað hvort til sinna heimahaga eða til efnahagssvæða þar sem vinnuframboð verður meira en hér,“ segir í morgunkorni Glitnis.