Alls falla krónubréf að nafnvirði 27 milljarða króna auk vaxta á gjalddaga í þessum mánuði og er fyrsti gjalddaginn nú á föstudaginn þegar 2 milljarðar falla á gjalddaga. Þann 19. mars er stór gjalddagi, er 25 milljarða útgáfa austuríska ríkisins til eins árs kemur á gjalddaga. Enn sem komið er hefur ekkert örlað á nýjum útgáfum í mánuðinum. Vaxtamunur við útlönd hefur farið minnkandi að undanförnu sem hefur vafalítið sitt að segja.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Í janúar gjaldféllu krónubréf að nafnvirði 65 milljarðar króna og var gjalddögunum að fullu mætt og gott betur, en alls voru gefin út krónubréf að nafnvirði ríflega 82 milljarðar.  Aldrei hafa verið gefin út krónubréf fyrir hærri upphæð innan eins mánaðar síðan krónubréfaútgáfa hófst hér á landi á haustmánuðum 2005.

Í febrúar var einnig gangur í útgáfu nýrra krónubréfa en þá voru gefin út bréf fyrir 16 milljarða og nam útgáfa umfram innlausn 8 milljörðum króna. Þegar þetta er allt tekið saman er ljóst að þrátt fyrir að engin ný útgáfa líti dagsins ljós í mars hefur gjalddögum 1. ársfjórðungs verið mætt með nýjum útgáfum nærri að fullu.

Útgáfa það sem af er árs nemur ríflega 98 milljörðum króna en alls falla krónubréf að nafnvirði 100  milljarða  á gjalddaga í fjórðungnum að viðbættum vöxtum.

„Í ljósi þeirra markaðsaðstæðna sem nú ríkja teljum við líklegt að lítið verði um útgáfu krónubréfa á næstunni. Gengi krónunnar hefur nú lækkað um 14% frá áramótum sem dregur úr ávinningi af þeim útgáfum sem nú eru á gjalddaga. Þá hafa aðstæður á fjármálamörkuðum gert það að verkum að áhættufælni fjárfesta hefur aukist en þeir aðilar sem stunda vaxtarmunarviðskipti eru mjög viðkvæmir fyrir aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og geta verið fljótir að loka stöðum með hávaxtamyntum þegar svo ber undir og leita í öruggara skjól með fjárfestingar sínar. Síðast en ekki síst hefur vaxtamunur gagnvart evru og dollar í framvirkum samningum dregist verulega saman á síðustu vikum og því er óhægt um vik fyrir útgefendur að bjóða háa vexti á nýjum krónubréfum,“ segir í Morgunkorni Glitnis.