Glitnir hefur endurskilgreint hlutverk útibúa bankans á Íslandi og breytingar verða gerðar á öllum útibúum, svo bankinn geti enn betur sinnt hlutverki sínu sem þjónustufyrirtæki segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Útibúið á Kirkjusandi er fyrsta útibú bankans sem gengur í gegnum útlitsbreytingar sem endurspegla hlutverk fyrirtækisins. Öll önnur útibú bankans munu fylgja í kjölfarið.

?Glitnir er á vissan hátt að breyta eðli sinnar starfsemi á Íslandi. Það má segja að breytingarnar færi bankann mun nær sínum viðskiptavinum og við höfum skerpt enn frekar á hlutverki bankans sem þjónustufyrirtækis,? segir Jón Diðrik Jónsson, forstjóri Glitnis á Íslandi í tilkynningunni.


?Í nýjum útibúum Glitnis verður öll almenn bankaþjónusta veitt af sérhæfðu starfsfólki bankans og er lögð áhersla á að viðskiptavinir fái heildarlausn í fjármálum á einum stað,? bætir Jón Diðrik við, enda ljóst að mismunandi þarfir einstaklinga og fyrirtækja kalla á sífellt sérhæfðari fjármálaþjónustu.


Útibú Glitnis á Kirkjusandi er það fyrsta í röðinni sem fær andlitslyftingu. Í framhaldinu mun Glitnir breyta öllum útibúum sínum á sama hátt. Markmið breytinganna er að auka enn frekar þjónustu við viðskiptavini bankans og tengja útibúin enn frekar nærumhverfi sínu. Með þetta fyrir augum hefur húsnæðið sérstaklega verið hannað fyrir lifandi og síbreytilega starfsemi, sem endurspeglar sýn bankans á hlutverk sitt og verkefni.


Sem dæmi um frekari breytingar má nefna að framvegis mun Glitnir bjóða viðskiptavinum sínum og öðrum áhugasömum, upp á áhugaverða og lifandi fræðslu og upplýsingar um fjármál. Fundirnir verða kynntir í auglýsingum og innan útibúa Glitnis. Þessu til viðbótar mun bankinn að sjálfsögðu bjóða viðskiptavinum sínum bestu mögulegu kjör á íslenskum bankamarkaði, auk þess sem Glitnir mun vera virkur þátttakandi í samfélaginu.