Glitnir tilkynnti í dag um skipulagsbreytingar í kjölfar mikils vaxtar bankans síðustu ár eins og það heitir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Breytingarnar nú koma í framhaldi af sameiningu markaðsviðskipta og stofnun rekstrarsviðs sem komu til framkvæmda 24. ágúst síðastliðinn.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að markmið skipulagsbreytinganna eru markviss stjórnun, aukin skilvirkni og samþætting og að búa enn frekar í haginn fyrir frekari vöxt bankans. "Eftir mikinn innri vöxt og sjö yfirtökur á aðeins tveimur árum þurfum við að laga félagið að breytingunum," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis í tilkynningunni. "Hið nýja skipulag mun auðvelda okkur næstu skref og að uppfylla gildi bankans; að vera fljót, snjöll og fagleg."

"Breytingarnar nú eru annað skrefið í að laga skipulag okkar að alþjóðlegri fjármálastarfsemi bankans. Í fyrra skrefinu var stofnað sérstakt rekstrarsvið og öll markaðsviðskipti voru sameinuð í eitt svið. Í breytingunum núna felst að stofnað er svið sem nefnist ?Corporate Development? (þróunarsvið) og að Fjárfestinga- og alþjóðasviði er skipt í tvær einingar, Fyrirtækjasvið og Fjárfestingabankasvið. Markmiðið með þessum breytingum er að styrkja yfirstjórn bankans enn frekar með enn skýrari verkaskiptingu milli eininga og á sama tíma að efla enn frekar samþættingu innan bankans,? segir Bjarni.

"Nýtt skipulag gerir bankanum kleift að bjóða viðskiptavinum fjölbreyttari og markvissari þjónustu, m.a. með því að samnýta sérþekkingu bankans á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi, Kanada og Lúxemborg sem og á skrifstofu í Kína, sem ráðgert er að opna undir lok ársins" segir Bjarni.

Vöxtur Glitnis hefur verið mikill síðustu ár. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs skilaði bankinn 11,0 milljarða króna hagnaði eftir skatta samanborið við 9,1 milljarð á fyrsta ársfjórðungi. Samanlagður hagnaður eftir skatta fyrstu sex mánuði ársins nam því 20,1 milljarði króna en var á sama tímabili í fyrrra 10,5 milljarðar króna. Arðsemi eigin fjár sló fyrri met, var 45,5% fyrstu sex mánuði þessa árs.

Skipulagsbreytingar

Hið nýja skipulag er byggt upp af fimm mismunandi rekstrareiningum:

Heimamarkaðir

· Viðskiptabankasvið á Íslandi

· Commercial Banking Noregi

Alþjóðlegt/svæðisbundið þjónustuframboð

· Investment Banking

· Corporate Banking

· Markets

Þrjá stoðeiningar munu styðja við starfsemi og samþættingu rekstrareininga:

· Corporate Development (Þróunarsvið)

· Shared Services (Rekstrarsvið)

· Finance and Risk Management (Fjármál og áhættustýring)