Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og Bjarni Frímann Karlsson, lektor í viðskipta- og hagfræðideild við sama skóla, segja rúman fjórðungshlut í breska félaginu Aurum Holding hafa verið ofmetinn þegar FS38, félag Pálmi Haraldssonar, fékk lánað hjá Glitni í júlí árið 2008. Pálmi fékk hins vegar sex milljarða króna hjá bankanum. Þetta er 13-falt raunvirði hlutarins.

Fram kemur í umfjöllun Fréttablaðsins í dag þar sem fjallað er um skaðabótamál sem slitastjórn Glitnis rekur gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Baugs og ráðgjafa hjá 365, Pálma, og þremur fyrrverandi starfsmönnum Glitnis. Þeir eru krafðir um greiðslu á milljörðunum sex auk vaxta.

Jón Ásgeir og Pálmi fengu einn milljarð króna hvor af láninu frá Glitni en fjórir milljarðar fóru í að greiða niður lán Fons.

Þeir Gylfi og Bjarni voru dómskvaddir matsmenn í málinu og komust þeir að þeirri niðurstöðu að verðmæti hlutarins væri á bilinu nútt til 929 milljónir króna. Þeir töldu eðlilegt að miða við miðvirðið, 464 milljónir króna.

Í blaðinu segir hins vegar að hinir stefndu í málinu segir að snemma árs 2008 hafi skartgripasali frá Mið-Austurlöndum haft áhuga á að kaupa allan hlut Fons í Aurum Holding og skrifað undir óskuldbindandi tilboð um miðjan júní upp á sex milljarða króna. Telja þeir að tilboðið sýni verðmatið sem miðað var við í viðskiptunum. Upp úr viðræðum við skartgripasalann á hins vegar að hafa slitnað í október árið 2008.