Greiningardeild Glitnis hefur lækkað verðmatsgengi sitt á Kaupþingi banka í 968 krónur á hlut úr 979 krónum á hlut.  ?Verðmatsgengið er 18% yfir gengi á markaði (822). Við mælum með að fjárfestar kaupi bréf í félaginu horft til langs tíma. Markgengi (e. target price) er 920 en það er spá okkar um hvar gengi bréfa í félaginu stendur að sex mánuðum liðnum,? segir greiningardeildin.

?Kaflaskil hafa átt sér stað í sögu félagsins með vel heppnuðu hlutafjárútboði til erlendra fjárfesta. Kaupþing banki getur núna án vandkvæða fjármagnað yfirtöku á öðrum fjármálafyrirtækjum fyrir 100-150 milljarða króna.

Við reiknum með að bankinn geti sótt aukið fjármagn til erlendra fjárfesta eftir þörfum. Við teljum líklegast að á árinu 2007 muni stjórnendur einbeita sér að kröftugum vexti þóknanatengdrar starfsemi, einkum hjá dótturfélögunum Kaupþing Singer & Friedlander og FIH. Búið er að leggja í talsverðan kostnað tengdan endurskipulagningu og uppbyggingu sem ætti að skila sér á komandi ári,? segir greiningardeildin.