Greiningardeild Glitnis hefur gefið út nýtt verðmat á Actavis Group og metur félagið á 226,7 milljarða króna eða 2.448 milljónir evra. Það verðmat jafngildir genginu 68,1 krónu á hlut.

Við hádegi var gengi Actavis skráð 61,20 krónur í Kauphöllinni.

?Í ljósi verðmatsins mælum við með að fjárfestar kaupi bréf í Actavis. Ráðgjöf okkar til skemmri tíma er að yfirvoga bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum. Í ráðgjöfinni felst að við höfum trú á að bréf Actavis muni skila betri ávöxtun en markaðurinn í heild til næstu 3-6 mánaða," segir greiningardeildin.

Síðasta verðmat greiningardeildar Glitnis á Actavis Group var gefið út í júlí á síðasta ári, þá var verðmatsgengið 45.

Hækkunin frá þeim tíma er vegna jákvæðara samlegðaráhrifa sem átti sér stað við kaupin á samheitalyfjafyrirtækinu Sindan og samheitalyfjahluta Alpharma.

Lækkun gengis krónunnar gagnvart evrunni skiptir einnig verulegu máli.