Sænski bankinn Swedbank tilkynnti í dag að Raimo Valo hefði verið ráðinn bankastjóri Swedbank Russia sem er starfsstöð bankans í Rússlandi.

Valo hefur hingað til starfað sem yfirmaður Glitnis í Rússlandi (e. Russian Country Manager) og er með yfir 20 ára reynslu úr fjármálageiranum að sögn Dow Jones fréttaveitunnar.

„Markmið okkar er að efla starfssemi okkar í Rússlandi og með reynslu og þekkingu Raimo Valo eigum við von á góðum árangri, bæði í hefðbundinni viðskiptabankastarfssemi sem og alþjóðlegum fjárfestingum,“ sagði Jan Liden, forstjóri Swedbank Group.

Valo tekur við starfinu af Maris Mancinskis sem mun hverfa til annarra starfa innan Swedbank Group svo lengi sem yfirvöld í Rússlandi samþykkja breytinguna en mannabreytingar af þessu tagi eru háðar samþykkir rússneskra yfirvalda.