Greining Glitnis hefur gefið út nýtt verðmat á Landsbankann. Niðurstaða verðmatsins er 293 milljarðar kr. sem jafngildir genginu 29,0 krónur á hlut.

"Í ljósi verðmatsins mælum við með að fjárfestar kaupi bréf í Landsbankanum. Ráðgjöf okkar til skemmri tíma er að markaðsvoga bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðnum. Í ráðgjöfinni felst að við höfum trú á að bréf Landsbankans skili áþekkri ávöxtun og markaðurinn í heild til næstu 3-6 mánaða," segir Greining Glitnis.

Í síðasta verðmati þeirra á Landsbankanum frá 20. febrúar síðastliðnum var verðmatsgengið 30,0. Lækkunin síðan þá kemur að mestu til af hækkun ávöxtunarkröfu úr 11,6% í 11,95%. Hækkun ávöxtunarkröfunnar orsakast af hækkun á vegnum áhættulausum vöxtum en á móti lækkar reiknuð Beta úr 1,18 í 1,16. Forsendum um útlánavöxt hefur verið breytt þannig að nú er spáð meiri útlánavexti í ár vegna lækkunar á gengi krónunnar. Hinsvegar hefur áætlaður útlánavöxtur næstu tvö árin hefur lækkaður til samræmis við meiri óvissu um fjármögnun bankans. Endurskoðun á öðrum spábreytum hefur leitt til minni breytinga á verðmatsgenginu segir Greining Glitnis.