Glitnir er nú eini íslenski bankinn sem á í yfirtökuviðræðum við breska húsnæðislánafyrirtækið Portman Building Society um kaup á innlánaeiningunni Portman Channel Islands (PCI), samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Ráðgjafarfyrirtækið Gleacher Shacklock er með PCI í sölumeðferð og sendi einnig Landsbanka Íslands og Kaupþingi upplýsingar um innlánaeininguna, sem ákveðið hefur verið að selja áður en Portman Building Society sameinast keppinautinum Nationwide.

Landsbankinn gerði óformlegt kauptilboð í PCI en hefur dregið sig út úr viðræðunum, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins. Hugsanleg kaupverð er ekki fjáanlegt en innlán PCI hafa fjórfaldast á síðustu fimm árum í 89 milljarða króna.

Ekki er talið að Kaupþing hafi sýnt PCI áhuga.