Glitnir og Byr sparisjóður hafa ákveðið að hefja samrunaviðræður samkvæmt tilkynningu félaganna til Kauphallarinar.

Í tilkynningunni kemur fram að í þessu felst einnig að stjórnir félaganna hafa skuldbundið sig til að ræða ekki við aðra aðila um samstarf eða sameiningar á meðan viðræður standa yfir.

Þá er stefnt að því að niðurstaða liggi fyrir eins fljótt og auðið er.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis segir í tilkynningu að með viðræðunum sé verið að kanna hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu félaganna.

„Glitnir og Byr eru bæði sterk fjármálafyrirtæki með traust eiginfjárhlutfall. Náist niðurstaða í sem báðum er að skapi, er lagður grunnur að enn sterkara fyrirtæki sem er vel í stakk búið til að athafna sig í því árferði sem nú ríkir á markaði,“ segir Lárus.

„Sameinað fyrirtæki ætti einnig mikil sóknarfæri þegar markaðir komast aftur í eðlilegt horf. Við förum í þessa vinnu af krafti og könnum þennan kost til hlítar eins hratt og auðið er.“

Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs segir að Byr sé sparisjóður sem standi sterkt „þrátt fyrir ágjöf síðustu mánaða,“ eins og hann orðar það.

„Stjórn félagsins hefur skoðað vandlega þá kosti sem eru í stöðunni og telur að styrkur Byrs verður best nýttur í samstarfi við öflugt fyrirtæki á íslenskum og alþjóðlegum  fjármálamörkuðum,“ segir Ragnar í tilkynningunni.

„Við höfum því ákveðið að ganga til viðræðna við stjórn Glitnis á þeim forsendum. Eignasöfn beggja fyrirtækja eru góð og félögin eru með sterkan eiginfjárgrunn. Það er því  áhugavert fyrir okkur að skoða þennan möguleika ofan í kjölinn.”