Bæði Glitnir og Kaupþing í Bandaríkjunum hafa á síðustu viku óskað eftir greiðslustöðvun.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters í kvöld en Kaupþing óskaði eftir því um helgina við gjaldþrotadómstólinn í New York fylki að bankinn yrði tekinn til gjaldþrotaskipta.

Þá hafði Glitnir farið fram á greiðslustöðvun s.l. miðvikudag.

Um er að ræða beiðni samkvæmt 15. kafla bandarísku gjaldþrotalaganna, í þeim tilganig að fá greiðslustöðvun bankans hér á Íslandi, viðurkennda í Bandaríkjunum.

Reuters hefur eftir Ólafi Garðarssyni, skiptastjóra Kaupþings að eignir Kaupþings nemi um 14,8 milljörðum Bandaríkjadala og þar af eru 222 milljónir dala í Bandaríkjunum. Þá segir fréttastofan að Kaupþing skuldi um 26 milljarða dali.

Ólafur segir í samtali við Reuters að markmiðið sé að sem flestir kröfuhafar geti fengið upp í kröfur sínar.

Í frétt Reuters kemur fram að íslenskir bankar hafi á síðustu árum fengið milljarða dali að lána til að fjármagna árásargjarna (e. aggressive) útrás sína, eins og það er orðað í frétt Reuters.

Þá hefur Reutes eftir Ólafi að kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni í lok september hafi leitt til falls krónunnar, lækkunar á lánshæfismati ríkissjóðs og bankana og bankaáhlaupi erlendra fjárfesta.

Þá kemur einnig fram að þann 19. Nóvember s.l. hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkt að veita Íslandi 2,1 milljarða dala lán sem sé hluti af 10 milljarða dala lánapakka landsins.

Til gamans má geta að frétt Reuters endar á því að minnast þess að í dag fögnuðu Íslendingar 90 ára fullveldi frá frændum okkar Dönum.

Uppfærð frétt -  Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var því haldið fram að bankarnir hefðu óskað eftir því að vera teknir til gjaldþrotaskipta - líkt og orðalag Reuters gaf til kynna. Hins vegar er um að ræða beiðni um að fá greiðslustöðvun hérlendis viðurkennda í Bandaríkjunum og hefur fréttin verið uppfærð með tilliti til þess.