Glitnir opnaði starfsstöð í New York í gær, þá fyrstu í Bandaríkjunum. Þar með heldur Glitnir úti starfsstöðvum í alls 11 löndum í þremur heimsálfum. Markmiðið er að fylgja eftir ört vaxandi umsvifum bankans í Norður-Ameríku og verður áhersla lögð á fjárfestingarbankastarfsemi og fyrirtækjaviðskipti á þeim sviðum sem bankinn hefur sérhæft sig. Þetta kemur fram í frétt frá bankanum.

Meginhlutverk skrifstofunnar er að veita almenna fjármálaþjónustu á áherslusviðum bankans á alþjóðlegum mörkuðum: matvælaiðnaði, sérstaklega sjávarútvegi, jarðvarma og skipaiðnaði, og einnig að veita viðskiptavinum af heimamörkuðum bankans fjármálaþjónustu og stuðning í verkefnum þeirra í Bandaríkjunum.

?Það eru mörg tækifæri í Bandaríkjunum, einkum í ljósi mikilla möguleika sem við blasa í virkjun jarðvarma í Ameríku,? segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis. ?Þar eru mikil tækifæri fyrir Glitni, banka sem hefur sérhæft sig á alþjóðavísu við að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir. Starfsemi okkar í Norður-Ameríku er ört vaxandi og starfsstöðin er opnuð í rökréttu framhaldi af því.?

Meðal þeirra sem voru viðstaddir opnun starfsstöðvarinnar í New York voru Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Alexander Karsner, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, Þorsteinn M. Jónsson, stjórnarformaður Glitnis, og Lárus Welding, forstjóri Glitnis.

Jonathan Logan, framkvæmdastjóri nýju starfsstöðvarinnar sem ber nafnið Glitnir Capital Corporation, segir bankann einkum beina sjónum sínum þar vestra að þeim þremur meginsviðum, þar sem hann sé nú þegar í fremstu röð í heiminum: jarðvarma og öðrum endurnýjanlegum orkulindum, sjávarútvegi og þjónustu við olíuiðnaðinn. Þá muni Glitnir Capital Corporation vinna náið með norrænum viðskiptavinum sínum á bandarískum markaði.