Glitnir hefur, í samstarfi við Morgan Stanley & Company Inc., haft milligöngu um 180 milljón bandaríkjadala lánafyrirgreiðslu fyrir Nevada Geothermal Power Inc.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Þar kemur fram að lánafyrirgreiðslan, sem fengin er hjá TCW Asset Management Company, verður nýtt til að fjármagna fyrsta áfanga í byggingu jarðhitavers Blue Mountain, „Faulkner 1.“

Framleiðslugeta orkuversins verður 49,5 MW og verður raforkan seld til Nevada Power Company með samningi til 20 ára.

Þegar orkuverið tekur til starfa undir lok árs 2009 mun það sjá íbúum í  suðurhluta Nevada fyrir 38.8 MW af hreinni, endurnýjanlegri orku, en töluverður vöxtur hefur verið í íbúafjölda á þessu svæði, segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að samningurinn gerir fyrirtækinu kleift að hefja framkvæmdir við byggingarfasa verkefnisins, sem markar stórt skref í sögu Nevada Geothermal Power.

Glitnir hafði, á sínum tíma, milligöngu um lánafyrirgreiðslu til Nevada Geothermal Power að jafnvirði 20 milljóna bandaríkjadala. Það lán var nýtt til að fjármagna fyrsta hluta jarðorkuversins, borholusvæðið, innri uppbyggingu og ýmsan þróunarkostnað. Með þessu láni er fyrirtækið nú mun nær því að geta lokið verkefninu og mun þannig brátt sjá suðurhluta Nevada fylkis fyrir nauðsynlegri grunnorku.

„Þessi samningur er tímamóta skref í þróun jarðhitaorku, bæði fyrir Nevada Geothermal og Glitni og jarðhitaiðnaðinn allan. Við munum halda áfram á sömu braut og standa þétt að baki þróunarverkefnum í  jarðhitaiðnaði um allan heim og taka þátt í virkjun hreinnar endurnýjanlegrar orku", segir Árni Magnússon framkvæmdastjóri Orkusviðs Glitnis í tilkynningunni.

„Við erum mjög stolt af  því að taka þátt í hinum sívaxandi jarðhitaiðnaði í Bandaríkjunum og koma að fjármögnun og ráðgjafaþjónustu stórverkefna á borð við Blue Mountain, segir Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis jafnframt í tilkynningunni.

„Forsetaframbjóðendurnir John McCaine og Barack Obama, og varaforsetaframbjóðendur þeirra, hafa lýst stuðningi við nýtingu jarðvarma og hafa sett jarðhitan á pólitíska kortið.  Við erum því sannfærð um að jarðhitaiðnaðurinn muni halda áfram að vaxa hratt í  Bandaríkjunum á næstu árum."

Leiðandi í fjármögnun sjálfbærra verkefna og í fjármögnun jarðvarmaorku.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Glitnir hefur verið leiðandi banki í stuðningi við jarðhitaverkefni. Bankinn hefur markað sér sérstöðu með sérþekkingu á fjármálaþjónustu við sjávarútveg, jarðhita og þjónustuskip í olíuiðnaði.

Á fyrsta helmingi þessa árs voru lán til fyrirtækja á þessum sviðum um 14% af lánabók bankans og um 40% ráðgjafatekna bankans má rekja til þessara sviða. Glitnir hyggst halda áfram að fjármagna jarðhitaverkefni í Bandaríkjunum, segir í tilkynninguni.

Þá kemur fram að meðal fyrri jarðhitaverkefna bankans eru milliganga um 15 milljón bandaríkjadala láns Senior Secured "Resource Verification Loan" til Hudson Ranch I, LLC, dótturfyrirtæki CHAR LLC. Lánið verður nýtt til að fjármagna jarðorkuver sem mun framleiða 49.9 MW af orku á Salton Sea jarðhitasvæðinu í Kaliforníu.

Glitnir annast einnig fjármögnun á þessu sviði utan Bandaríkjanna og má þar nefna þróun á stærstu jarðvarmaveitu heimsins í Kína.